Fjaran er landræman milli lands og sjávar sem við sjáum þegar flæðir frá og fer á kaf á flóði eða brimar yfir. Umhverfi fjörunnar myndar einstakar og breytilegar aðstæður fyrir lífverur og í þeim þrífast fjölmörg og ólík vistkerfi. Íslenskar fjörur eru flokkaðar í 24 misjafnlega víðtæka vistgerðaflokka og á Akranes, sem er næst minnsta sveitarfélag Íslands að flatarmáli, finnast 9 þessara flokka innan bæjarmarkanna. Á þessum svæðum er líffræðilegur fjölbreytileiki mikill og því mikilvægt að þekkja fjörurnar okkar og hlúa að þeim.
Á barnamenningarhátíð 2024 var lögð sérstök áhersla á fjörurnar okkar og úr varð þessi fræðslusíða og samantekt. Hér má finna smá fróðleik um allar þær fallegu fjörur sem faðma bæinn okkar, lífríkið sem þar má finna og við vekjum sérstaka athygli á verkefnum Barnamenningarhátíðar sem unnin voru af leik- og grunnskólabörnum í völdum fjörum. Sérstakar þakkir fá Ása Katrín Bjarnadóttir og Helena Guttormsdóttir fyrir gagnaöflun.
Barnamenningarhátíð var styrkt af Barnamenningarsjóði og Samtökum Sveitarfélaga á Vesturlandi.