Kalmansvíkin dregur nafnið frá gelíska orðinu ‚calaman‘ sem þýðir lítil dúfa. Ekki er vitað af hverju víkin hefur fengið það nafn en líklega hafa írskir landnemar haft eitthvað með það að gera. Í Kalmansvík setja klettar og svartur sandur sterkan svip á svæðið. Klettarnir eru þaktir mismunandi þangi eftir því hversu ofarlega það er í fjörunni og í þessari fjöru má finna 6 mismunandi tegundir af þangi; dvergþang, klappaþang, bóluþang, klóþang, hrossa- og beltisþara. Allur þessi sjávargróður er mikilvægt skjól fyrir allskyns smádýr sem laða að fugla og önnur sædýr í æti sleit. Mikið er um krabbadýr og kuðunga í fjörunni sem fuglum finnst vera lostæti og þess vegna má finna fullt af mismunandi fuglategundum. Algengustu tegundirnar eru ýmsar mávategundir, æðarfugl, toppendur og straumendur ásamt lóuþræl, tjald, stelk og sendling. Kalmansvíkin á sér sorglega fortíð því hún var vinsæll ruslahaugur í gamla daga og þess vegna er oft mikið af skrítnu rusli og drasli í þessari fjöru enn þann dag í dag.
Skemmtileg afþreying í þessari fjöru:
Elstu börn á leikskólanum Garðaseli fengu það verkefni að búa til sæskrímsli í Kalmansvík í tengslum við barnamenningarhátíð á Akranesi.
Börnin hófu sína sæskrímslavinnu með allskonar skemmtilegum verkefnum. Þau hlustuðu til dæmis á sögu um sæskrímsli, teiknuðu sín eigin sæskrímsli, fóru í tvær ferðir í Kalmansvík til að fá hugmyndir um hvernig þau vildu hafa sitt sæskrímsli þar og gerðu lítil sæskrímsli úr allskyns efniviði sem voru hengd upp í leikskólanum.
Vinnan að sæskrímslinu í Kalmannsvík var ótrúlega skemmtileg. Við settum upp bretti með vírneti til að nota sem undirstöður fyrir skrímslið og börnin skreyttu það eftir sínu höfði. Þau voru mjög hugmyndarík og nutu sín vel að hanna skrímslið í sameiningu.
Þau fundu fullt af allskonar hlutum í fjörunni sem þau notuðu til að búa til skrímslið. Þau töluðu um að setja húð, tungur, horn, hala, augu, nef, tennur og hár á skrímslið. Úr varð þetta glæsilega sæskrímsli sem er á myndunum sem hér fylgja.
Eftir miklar nafna pælingar fyrir skrímslið komust börnin að niðurstöðu með að það ætti að heita Ruslaskrímslið.
Fjörutegundir: Grýttar fjörur – Þangfjörur.
Fuglar: Mávar, Æðarfugl, Toppendur, Straumendur, Lóuþræll, Tjaldur, Stelkur, Sendlingar.
Kuðungar: Klettadoppa, Beitukóngur, Nákuðungur.
Þang: Klóþang, Dvergþang, Bóluþang, Fjörufléttur, Hrossaþari og Beltisþari
Skelfiskur: Bogkrabbi, Skollakoppur