Barnamenningarhátíð

Langisandur

Langisandur ber nafn með rentu en fjaran er rúmlega kílómeters löng skeljasands strönd en áður en sementsverksmiðjan kom þá náði hún alla leið að svæðinu þar sem höfnin er í dag. Lítið líf er í sandinum því hann er á stöðugri hreyfingu í ölduganginum en oft skola upp á land dauðar lífverur sem mávum og æðarfuglum finnst gott. Vaðfuglar eins og tjaldar og sendlingar sjást oft á vappi í leit að æti en mest áberandi dýrategundin á Langasandi er líklegast mannfólkið sem elskar að bora tánum í sandinn og baða sig í Guðlaugu.

Skemmtileg afþreying í þessari fjöru: 

  • Sandurinn á langasandi hentar vel til þess að byggja sandkastala og allskyns listaverk.
  • Þessi fjara er nú eiginlega baðströndin okkar, svo hví ekki að skella sér með handklæði og nesti á sandinn þegar sést til sólu.
  • Það getur verið ótrúlega skemmtilegt að teikna fallegar myndir í sandinn.
  • Sjórinn er kannski svoldið kaldur, en það getur verið mjög frískandi að bussla aðeins í góða veðrinu.
  • Maður getur aldeilis gleymt sér að týna skeljar, kuðunga og steina á Langasandi.

Vissu þið að Langisandur er bláfánaströnd! 

Bláfánanum verður flaggað í 12 skiptið á Langasandi þann 29. maí 2024. Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisvottun sem veitt er smábátahöfnum, baðströndum og þjónustuaðilum í sjávarferðamennsku fyrir árangursríkt starf í umhverfismálum. Meginmarkmið verkefnisins er að vernda lífríki haf- og strandsvæða, draga úr umhverfisáhrifum, bæta öryggi og efla umhverfisvitund. Bláfáninn er tákn um góða frammistöðu í umhverfismálum og bætir ímynd og ásýnd rekstraraðila þar sem hann blaktir við hún. Bláfáninn er veittur þeim baðströndum sem uppfylla ákveðin skilyrði sem lúta að eftirfarandi þáttum; umhverfisfræðsla og upplýsingagjöf, vatnsgæði, umhverfisstjórnun, öryggi og þjónusta. Landvernd er umsjónaraðili Bláfánans á Íslandi, hægt er að finna frekari upplýsingar um Bláfánann á vef Landverndar.

Barnamenningarhátíð 2024

Á barnamenningarhátíðinni lögðum við áherslu á náttúruperluna sem faðmar bæinn okkar – Fjörurnar okkar. Börn í leikskólum Akraneskaupstaðar fengu það verkefni að skapa sitt eigið sæskrímsli í völdum fjörum. Þannig tengjast börnin náttúrunni okkar á skemmtilegan og skapandi hátt og við kynnumst fjörunni einnig í gegnum þeirra augu.

Verkefnið hófst með því að elstu deildir leikskólanna fengu fræðandi og skemmtilega heimsókn frá þeim Helenu Guttormsdóttur (Hellu) og Kristrúnu Sigurbjörnsdóttur (Krissu) þar sem þær fjölluðu um lífríki fjaranna og skapandi kveikjur sem finna má í fjörum. Heimsóknin snerti á hinum ýmsu skynfærum, þau sáu áhugaverð og endurtekin form kuðunga, líkindin með appelsínu og ígulkeri, hlustuðu á kuðungana, komu við þang og þefuðu ásamt því að fá að smakka söl.

Kristrún Sigurbjörnsdóttir heimsótti leikskólana síðan á nýjan leik og fjallaði þar um Katanesskrímslið og aðrar skemmtilegar sögur í okkar næsta nágrenni. Börnin voru hrifin og þótti skemmtilegt að læra um þessar kynjaverur.

Börnin fóru með þetta fína veganesti í fjöruna sem hver leikskóli valdi sér og skapa sitt eigið sæskrímsli. Garðasel í Kalmansvík, Teigasel í Krókalón, Akrasel og Vallarsel á Langasand. Bæjarbúum verður kynnt sérstaklega afrakstur þessa verkefnis.

Leikskólinn Akrasel - Rauðhöfði

(Ljósmyndir tók Guðni Hannesson)

Elstu börnin á Akraseli hlustuðu á söguna um illhvelið Rauðhöfða, sem synti um Faxaflóann og grandaði mörgum mönnum og skipum þeirra. Krakkarnir teiknuðu og lituðu mynd eftir sögunni og hanga þær myndir í gluggum leikskólans, gestum og gangandi til fróðleiks og yndiauka.

Farið var á Langasand, n.t.t. við Sólmundarhöfða þar sem krakkarnir fengu útrás við listsköpun á "sínu" sæskrímsli (með vísun í Rauðhöfða). Efniviðurinn var ýmis konar drasl og fjörugróður sem krakkarnir höfðu fundið í fjöruferðum sínum fyrr í mánuðinum.

Á meðan á listsköpuninni stóð mátti sjá mikla gleði og innlifun þar sem krakkarnir yfirfærðu innihald sögunnar yfir í "hræðilegt sæskrímsli", búið til úr sandi, þara- og fjörugróðri og fleiru sem finna mátti í fjörunni, sem át allt það sem fyrir augu þess bar (m.a. krabbaskeljar, plast, gras og fl.).

Gleðin var alls ráðandi og ljóst að að nýta má sagnaauð okkar íslendinga í skemmtileg verkefni með börnum.

Leikskólinn Vallarsel - Flugdrekar á Langasandi.

Börnin á Lundi í Vallarseli voru í skrímslaþemavinnu fyrir barnamenningarháðtíðina á Akranesi og fengum við Langasand til að vinna út frá. Við unnum verkefni af ýmsum toga sem voru bæði fjölbreytt og skemmtileg.

Við lásum og hlustuðum á skrímsla sögur ásamt því að Kristrún Sigurbjörnsdóttir kom til okkar og sagði okkur frá Katanesskrímslinu. Við fengum líka Kristrúnu og Helenu Guttormsdóttur til okkar í heimsókn og þær fræddu okkur um lífríkið á Langasandi og hvað er sérstakt við fjöruna. Þær komu meðal annars með steina, þara og þarablöðkur. Bæði lifandi og dauða krossfiska og kuðunga sem við lögðum við eyrað og heyrðum í sjónum. Þær leyfðu okkur að koma við og finna lyktina og við fengum einnig að smakka söl.

Við lærðum lagið Ég er lítið lasið skrímsli og fluttum það í bókabúðinni. Við fórum einnig í hljóðverið í Tónlistarskólanum og tókum upp lagði Loftið úr Þúsaldarljóðunum. Birte og Imma komu til okkar í heimsókn og buðu upp á skrímsla sögu skemmtun.

Lokaverkefnið var svo skrímslaflugdrekar sem við fórum með á Langasand. Við fengum nokkra foreldra til að koma með okkur og allir hjápuðust að við að koma skrímslunum á flug. Allir skemmtu sér mjög vel.

Hér að neðan má sjá ljósmyndir sem Guðni Hannesson tók af hópnum rúlla við fallegt undirspil þar sem börnin syngja lag um vatnið og vindinn.

Vangaveltur barnanna.

Hvað fannst þér skemmtilegast eða eftirminnilegast í skrímslavinnunni?

„Að búa til minn flugdreka.“

„Að fá mömmu með að flúga flugdrekanum.“

„Að minn flugdreki flaug í marga hringi og skaust svo niður.“

„Að fara út með flugdrekann.“

„Að vera með vin og sleppa bandinu og flugdrekinn flaug hátt alveg einn.“

Hvernig eru skrímsli?

„Risa vígtennur.“

„Með beitta tungu.“

„Mörg skrímsli eru græn og með þrjú augu.“

„Skrímsli eru blá.“

„Með brodda á bakinu.“

„Flott.“

„Húðin er glær og það sést í blóðið og æðar og hjartað og tennur og bein.“

„Virðast vera góð en eru vond.“

 

Fjörutegundir: Setufjörur - Líflitlar sandfjörur - Grýttar fjörur.

Fuglar:Tjaldar, Sendlingar, Sandlóa, Æðafuglar, Hávellur og Hrafnar.

Kuðungar: Nákuðungur, Þangdoppa, Klettadoppa.

Þang: Klapparþang, Bóluþang, Dvergþang

Skelfiskur: Skollakoppur, Olnbogaskel, Kræklingur, Hjartaskel, Hrúðukarlar.

Staðsetning

Staðsetning á Google maps