Barnamenningarhátíð

Skarfavör

Skarfavör einkennist af grófum skeljasandi sem gefur strax til kynna að þarna finnist mikið magn af allskyns skeldýrum. Nafnið er líklega komið til vegna þess að þarna sjást oft Skarfar úti á klettunum að þerra vængi sína en Skarfavörin er dvalarsvæði fjölmargra vaðfugla og sjófugla sem sækja í skjólið og hitann sem oft myndast í fjörunni. Lítill halli er í fjörunni og nær því fjaran langt út þegar flæðir frá og myndast þá grunnir pollar og árfarvegir sem gaman er að rannsaka í góðum stígvélum. Krabbadýr, ígulker, kuðungar og bláskeljar finnast í talsverðu magni í grynningunni og efst í fjörunni er gífurlegt magn af heillegum skeljum.

Skemmtileg afþreying í þessari fjöru:

  • Skarfavörin er einstaklega falleg fjara með glæsilegt útsýni yfir Akrafjall, hér er hægt að taka fallegar myndir.
  • Maður getur séð krabba og aðrar forvitnilegar lífverur í þessari fjöru.
  • Það er auðvelt að gleyma sér í fjörunni að týna kuðunga og skeljar.
  • Skarfavörin er staðsett niður á Breið, þar er ýmislegt forvitnilegt að sjá í sömu ferð.

Barnamenningarhátíð 2024

Á barnamenningarhátíðinni lögðum við áherslu á náttúruperluna sem faðmar bæinn okkar – Fjörurnar okkar. Börn í leik- og grunnskólum Akraneskaupstaðar fengu það verkefni að skapa sitt eigið sæskrímsli í völdum fjörum. Þannig tengjast börnin náttúrunni okkar á skemmtilegan og skapandi hátt og við kynnumst fjörunni einnig í gegnum þeirra augu.

Skrímslahreiður!

Verkefni 3. - 7. bekkinga Brekkubæjarskóla og Grundaskóla undir leiðsögn Tinnu Royal og Söru Blöndal í samvinnu við Þorpið frístundamiðstöð

 

Skrímsli eru þemað og Skarfavör er staðurinn. Skarfavör.. vör.. í vari.. skjól. Í skjóli á að gera hreiður. Skrímsli eru mömmur líka.

 

Hugmyndin kviknaði í þankagangi svipuðum og þessum þegar við stóðum í Skarfavör. Ákveðið var að bjóða börnum að útbúa stærðarinnar hreiður í fjörunni úr efni sem finndist í nær-umhverfinu. Reknir voru niður girðingastaurar í hring svo að verkið ætti betri möguleika að haldast í veðrum sumarsins. Safnað hafði verið saman niðurskornum greinum úr görðum víðsvegar úr bænum og var stærðarinnar haugur kominn við svæðið.

Útskýrt var fyrir börnunum hvernig best væri að "vefa" hreiður úr efninu. Börnin gengu hreint til verks og voru yfirfull af spennu og tilhlökkun og vissu nákvæmlega hvað þurfti að gera og skipuðu þau sér sjálf í sveitir. Einn hópurinn sótti greinar úr haugnum og drógu til þeirra sem höfðu skipað sig í "vefnað". Þriðji hópurinn sótti þara og fallegar skeljar til að mýkja og fegra Hreiðrið fyrir verðandi Skrímsla Mömmuna. Fyrsta daginn kláraðist haugurinn. Næsta dag var annar eins haugur kominn. Það var nauðsynlegt því að þétta og stækka þurfti hreiðrið. Krakkarnir sem kunnu tökin kenndu þeim krökkum sem komu nýjir á öðrum degi. Í lok dagsins var traust og þétta hreiður tilbúið til notkunnar!

Fjörutegundir: Setfjörur – Líflitlar sandfjörur – Grýttar fjörur – Þangfjörur – Fjörupollar.

Fuglar: Skarfur, Æðarfugl, Tjaldur, Hrafnar, Kría.

Kuðungar: Klettadoppa, Nákuðungur.

Þang:Klóþang, Bóluþang, Hrossaþari.

Skelfiskur: Aða, Kræklingur, Skollakoppur, Grjótkrabbi, Trjónukrabbi, Bogkrabbar, Olnbogaskel, Hjartaskel, Hrúðukarlar.

Staðsetning

Staðsetning á Google maps