Í Garðalundi er gott að koma saman. Garðalundur er skammt ofan Byggðasafnsins í Görðum og við hlið golfvallarins. Í Garðalundi er fjölbreyttur gróður og margar trjátegundir. Mest áberandi eru þó hátt í sextíu ára gömul grenitré sem sjá til þess að þar sé alltaf gott skjól til útivistar. Einnig er að finna fallegar tjarnir í Garðalundi þar sem hægt er að veiða síli, fylgjast með öndum og fleiri fuglum, og jafnvel bregða sér á skauta á veturna. Í Garðalundi er að finna ýmis konar leiktæki fyrir börn á öllum aldri, strandblakvöll og sparkvelli. Einnig er þar grillskáli, minigolfvöllur og dótakista með alls kyns leikföngum og áhöldum til útileikja sem gestum er frjálst að nota.