Listaverkið „Pýramídísk afstraksjón“ er eftir Ásmund Sveinsson sem fæddist árið 1893 að Kolsstöðum í Miðdölum, Dalasýslu. Hann var föðurbróði Hallsteins Sigurðssonar myndhöggvara sem m.a. gerði listaerið sem sett var upp árið 1992 í minningu Sturlu sagnaritara Þórðarsonar í Búðardal, Dalabyggð. Þessi Sturla sagnaritari var barnabarn Guðnýjar Böðvarsdóttur frá Görðum á Akranesi, svo að við fáum nú margslungin tengsl hérna við Akranes.
Listamaðurinn nam útskurð og teikningu hjá Ríkharði Jónssyni og Þórarni B. Þorlákssyni og lærði einnig í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og París en í a.m.k. síðastnefndu borginni var hann verðlaunaður og þá fyrir prófverkefni sitt „Sæmundur á selnum“ sem við könnumst við að hafa séð í skeifunni fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands við Vatnsmýrina, að Odda á Rangárvöllum og í framgarði Ásmundar við Sigtún í Reykjavík og einnig mun Sæmund blessaðan vera að finna í þekktum alþjóðlegum höggmyndagarði í París. Ásmundur lést árið 1982.
Meðal listaverka sem sjá má í fyrrnefndum framgarði Ásmundar við Sigtún eru verkin „Tröllkona“, „Veðurspámaður“, „Garðyrkjumaður“, „Tónar hafsins“ og „Helreiðin“. Árið 1981 var verk Ásmundar, „Sonartorrek“ sett upp við Borg á Mýrum í tengslum við samnefnt kvæði Egils Skallagrímssonar sem hann orti á 10. öld til að sefa harm sinn að látnum sonum. Mörg önnur útilistaverk eftir Ásmund finnast í Reykjavík og á öðrum stöðum.
Þetta verk, „Pýramídísk afstaksjón“ var sett upp 1975 í tilefni af Kvennaári. Það var kvenfélag Akraness, Menningarsjóður bæjarins og Sementsverksmiðjan sem stóðu straum af kostnaði. Þá þrengdi ekki að listaverkinu eins og e.t.v. nú vegna blokkarbyggingar og við afhendingu verksins komst Anna Erlendsdóttir, þá formaður kvenfélagsins, að orði:
„Listaverkið stendur hér við aðalbraut og í sínum kraftmikla einfaldleika blasir það við öllum sem í bæinn koma.“ Sagt er að þegar Ásmundur heyrði að verkið færi til Akraness hafði hann glaðst og haft að orði að útlínur verksins minntu á Akrafjallið. Það má a.m.k. að einhverju leyti til sanns vegar færa en þér er nú eftirlátið að sjá hvort ÞÉR finns að svo sé“!
Á horni Stillholts og Kirkjubrautar, 300 Akranesi