Í Garðalundi eða Skógræktinni eins og flestir Akurnesingar nefna staðinn er minnisvarði um Guðmund Jónsson (d. 1988), garðyrkjuráðunaut Akranesbæjar um og upp úr miðri tuttugustu öldinni. Guðmundur lagði gjörva hönd á margt er tengdist ræktunarmálum á Skaga á þessum árum og hóf meðal annars skógrækt hér í Garðalundi. Minnisvarðinn var settur upp af Akranesbæ árið 1997.
Ásteindranginum, sem náðist við gerð Hvalfjarðargangna er lágmynd af Guðmundi Jónssyni við starf sitt og hefur verið haft orð á því að vangamyndin af Guðmundi líkist honum sérlega vel. Á báðum hliðum drangsins eru fallegar blómamyndir og á skildi sem með fylgir segir úr ljóði Guðmundar Böðvarssonar frá Kirkjubóli í Hvítársíðu:
Þú gróðursetur agnarlítinn anga
með aðeins pínulítil blöð
svo rót hans verði sæl í sinni moldu
og sál þín glöð.
Minnisvarðinn er eftir Pál Guðmundsson (f. 1959) frá Húsafelli í Borgarfirði. Páll stundaði nám m.a. í Handíða- og myndlistarskólanum í Reykjavík og við Listaháskólann í Köln. Hann hefur bæði unnið við málara- og höggmyndalist og hefur haldið fjölda einka- og samsýninga bæði hérlendis og erlendis og varð fyrsti formlegi héraðslistamaður Borgfirðinga árið 2001.
Páll á verk bæði víðsvegar um landið og einnig erlendis. Á heimaslóðum að Húsafelli má til dæmis sjá draugana 18 á sínum stað og verkin öll í Bæjargilinu.
Að því að varðar listamenninga sem nefndir eru hér að ofan er skemmtilegt að vita til þess að Guðmundur Jónsson var ættaður frá Búrfelli í Hálsasveit, sem er alls ekki svo ýkja langt frá Húsafelli og Kirkjubóli, eins og þeir vita sem kunnugir eru á þessum slóðum.
Garðalundi (Skógræktin á Akranesi).