Á gatanmótunum við Íþróttamiðstöðina á Jaðarsbökkum er „Kubbaleikur“ eftir Guttorm Jónsson sem fæddur er árið 1942 í Laugardalnum í Reykjavík oghefur hann verið búsettur á Akranesi síðan á sjöunda áratugnum. Listaverkið var keypt af Akranesbæ og sett upp árið 1985. –Guttormur segir fyrstu hugmynd að verkinu hafa vaknað eitt sinn þegar hann sat til borðs á jólum og fagurlega sveigðir ananashringir skreyttu matarföt heimili hans.
Guttormur er sonur Gretu og Jóns Björnssonar en Greta skreytti m.a. Akraneskirkju að innan á sínum tíma og þau hjónin saman Innra-Hólmskirkju og mörg fleiri guðshús á landinu. Einnig skreyttu þau Bíóhöllina á Akranesi þegar hún var byggð árið 1942. Guttormur er húsasmiður að mennt og sótti námskeið hjá módel- og höggmyndadeild Myndlistaskólans í Reykjavík á árunum 1979-1983 en er annars að mestu sjálfmenntaður í list sinni. Hagleikur hans hefur einnig notið sín í starfi en hann var safnvörður við Byggðasafnið í Görðum um árabil . Guttormur hefur tekið þátt í og haldið margar sam- og einkasýningar, bæði á Akranesi, í Reykjavík og víðar. –hann var bæjarlistamaður Akraness árin 1994 og 1995.
Við Grundaskóla, Innesveg 300 Akranesi