Hringrás eftir Ingu Ragnarsdóttir

Á sjómannadaginn, 1. júní 2008 var útilistaverkið „Hringrás“  vígt á lóð við Sjúkrahúsið og Heilugæslustöðina á Akranesi. Verkið er eftir myndlistarkonuna Ingu Ragnarsdóttur.

Við athöfnina flutti Sigurður Ólafsson, formaður listaverkanefndar SHA og fyrrverandi framkvæmdastjóri ávarp og rakti aðdraganda þess að verkið var sett upp.  Listakonan ávarpaði gesti og sagði frá verkinu og loks flutti sönghópur undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar tvö lög.  Að þessu loknu var gestum boðið til kaffisamsætis í matstofu SHA.  Á annað hundrað manns voru samankomnir á lóð SHA af þessu tilefni.

Verkið var valið eftir að haldin hafði verið samkeppni á vegum Sambands íslenskra myndlistarmanna.  Listskreytingasjóður ríkisins og Orkuveita Reykjavíkur lögðu stærsta framlagið til verksins en auk þeirra komu að fjármögnun þess Landsbankinn, Glitnir,  BM Vallá hf,  Sementsverksmiðjan hf og Akranesbær.

Verkið er vatnsverk í tveimur hlutum.  Annars vegar er fjögurra metra há, klofin súla með fjórum stöllum, þar sem fjórir fossar steypast niður milli stallanna og hins vegar snigill sem hringar sig um vatnsflauminn þar sem hann rennur að nýju niður í jarðlögin inn í hina eilífu hringrás vatnsins.  Súlan er staðsett í lítilli ferkantaðri tjörn, en snigillinn er í stærri tjörn sem er hringlaga.  Á milli tjarnanna er lækur.  Verkið er steypt í brons en tjarnirnar eru lagðar sjávargrjóti með steinsteyptum ramma í kring.

Listaverkið er tákrænt fyrir það starf og líf sem á sér stað innan vegg

ja sjúkrahússins þar sem upphaf og endir lífsins eru daglegt brauð.  Inga valdi sér vatnið sem tákn fyrir hringrás lífsins enda kallar hún verkið „Hringrás”.  Vatnið hefur lækningamátt eins og fjöldi sagna um heilsulindir sýnir og það eitt að hlusta á nið þess er heilnæmt.

Inga lauk námi úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1977 en hélt síðan utan til náms við Akademíuna í Munchen, en þaðan lauk hún burtfararprófi með Diplóma árið 1987.  Að útskrift lokinni fékk hún verkefni við útiverk í hinu gamla háskólahverfi í Schwabing í Munchen en síðan þá hefur hún verið að mestu búsett í Þýskalandi.

Inga hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í ótal samsýningum bæði hér á landi og erlendis.  Hún á verk á ýmsum opinberum söfnum m.a. Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur og Bæríska ríkislistasafninu.  Verk á opinberum vettvangi eru eftir hana eins og fyrr segir bæði í Munchen, Dusseldorf og í bænum Kempten, þar sem hún er búsett.  Hún er mjög ánægð að nú skuli hennar fyrsta útverk vera komið upp hér á landi, en verk eftir hana eru innandyra bæði á Heilsugæslustöðinni á Húsavík og í Seðlabanka Íslands.  Auk þess fékk hún það verkefni hjá forsætisráðuneytinu árið 1996 að gera portret af frú Vigdísi Finnbogadóttur þegar hún lét af störfum sem forseti og er það verk nú á Bessastöðum.  Inga segist vera myndhöggvari af gamla skólanum þar sem áhersla er lögð á handverkið og hefur hún sjálf unnið við verkið ,, Hringrás” á öllum stigum þess.

Að lokum skal þess getið, að grjótið og steypan sem er í tjörnum og læk listaverksins er frá Akranesi.  Umhverfi og hellulögn hannaði Áslaug Katrín Aðalsteinsdóttir, landslagsarkitekt.  Þetta er áreiðanlega einn af tæknilegustu gosbrunnum á landinu því rennslinu í brunninum er stýrt af vindmæli.  Hinir ótrúlega hæfileikaríku tæknimenn SHA eiga heiðurinn að skipulagningu og vinnu við uppsetningu verksins.

Staðsetning

Fyrir utan Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi, við Kirkjubraut.