Við Innnesveg hjá Leynisvogi er „Himnaríki“ eftir Jónínu Guðnadóttur (1943).
Jónína ólst upp á Akranesi en býr nú í Hafnarfirði. Hún er dóttir Guðna Kristjánssonar, bakarameistara og Stefaníu Sigurðardóttur, kaupkonu sem ættur var frá Skuld í Vestmannaeyjum.
Fjölskyldan átti heima í húsi sem þau byggðu að Suðurgötu 57 þar sem nú stendur suðurhluti Landsbankahúss. Þar var íbúðin á efri hæðinni en bakaríið, brauð og kökusalan voru á þeirri neðri.
Jónina stundaði listnám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, í Myndlistaskólanum í Reykjavík og framhaldsnám við Konstfack Skolan í Stokkhólmi.
Hún hefur unnið mikið í gler og leir en snýr sér nú meira að höggmyndalist. Jónína hefur haldið margar einka- og samsýningar bæði hérlendis og erlendis.
Himnaríki var keypt og sett upp af Akranesbæ árið 2000 og tengist samstarfi við Reykjavíkurborg sem þá var Menningarborg Evrópu.
Um verkið segir Jónína:
Konungar Egyptalands hins forna létu reisa píramída til að tryggja sálu sinni bústað eftir dauðann. Enn standa þeir, teygja sig til himins og minna okkur á forna menningu.
Þessi pýramídi ur fjörugrjóti teygir sig til himins til að minnast með virðingu lítillætis og nægjusemi konu sem bjó á sjávarkambinum þar sem heitir Teigvör og aðalgatan liggur frá höfinni. Hún lifði á sjávarfangi og í minningunni gekk hún á hverju degi til reka. Nútímann rak hinsvegar aldrei á hennar fjörur.
Þegar hún þótti ekki lengur fær til að sjá um sig sjálf, var henni komið fyrir á elliheimilinu í húsinu Arnardal og fór þá í fyrsta skipti á ævinni í baðker. Þá varð henni að orði: „ég vissi að það væri dýrðlegt í himnaríki, en að það væri svona unaðslegt datt mér aldrei í hug.“
Pýramídinn er þannig tákn um ævarandi þrautseigju þeirrar nægjusömu kynslóðar sjáfarplássanna sem nú er horfin en lagði grunninn að nútímanum. Baðkerið á toppi hans ber trúfesti hennar vitni í upphafi árþúsunds eins og pýramídarnir fornu
Vesturgata 32, 300 Akranesi