Við Dvalarheimilið Höfða við Innnesveg er „Grettistak“ eftir Magnús Tómasson (1943). Magnús býr nú að Ökrum í Hraunhreppi á Mýrum.
Magnús gat sér gott orð sem listamaður þegar á unga aldri og mun hafa haldið fyrstu einkasýningu sína í Bogasal Þjóðminjasafnsins 19 ára gamall, þá nemandi við Menntaskólann í Reykjavík. Hann stundaði nám meðal annars við Myndlistaskólann í Reykjavík og í Konunglegu Listaakademínunni í Kaupmannahöfn. Hann hlaut starfslaun Reykjavíkurborgar árið 1980 og varð þar með fyrsti „borgarlistamaðurinn“.
Þekkt verk eftir Magnús Tómasson frá SÚM-árum hans og í öðrum stíl en það sem við nú höfum hér er „Flugnaherinn sigursæll“, hersveit fjöldaframleiddra húsflugna, þar sem sú fremsta ber svartan liðsfána, og hefur verkið vissulega verið skilið á margan máta og er nú í eigu Listasafns Íslands.
Meðal annarra þekktra útilistaverka Magnúsar eru „Fangar frelsisins“, minnismerki um Fjalla-Eyvind og Höllu á Hveravöllu, „Þotuhreiðrið“ við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, „Einhyrningur og tvíhyrningur“ við Vesturbæjarskóla í Reykjavík og „Minnismerki óþekkta embættismannsins“ eða „The Monument of the Unknown Official“ sem áður var í porti milli Austurvallar og Lækjargötu en stendur nú við Reykjavíkurtjörn, fyrir framan Iðnó.
„Grettistak“ var sett upp árið 1995 og var m.a. kostað af Listskreytingarsjóði og var það ósk útboðsaðila að „listaverkið endurspeglaði aðstæður og væri sjónrænt örvandi í umhverfinu.“
Hugmyndinni að „Grettistaki“ lýsti Magnús þannig: „Hugmyndin varð til þegar mér varð hugsað til þeirrar kynslóðar, sem nú sest til hvíldar og þeirra handa, sem skapað hafa á þessari öld næstum öll þau mannvirki, sem þjóðin á og nýtur í dag, með hugviti, stórhug og striti...“
Listamaðurinn nefndi það á þessum vettvangi - á útmánuðum 2006 – að ef því væri við komið mætti nefna til sögunnar sem mikla hvatamenn að verkinu þá Daníel heitinn Ágústínusson, sem var í framkvæmdanefnd fyrir byggingu seinni áfanga Höfða, og Ásmund Ólafsson, þáverandi framkvæmdastjóra dvalarheimilisins.
Einnig vildi Magnús láta geta þess að Ellert og Kjartan Björnssynir frá Akrakoti í Innri-Akraneshreppi komu að frágangi verksins. Það gerði einnig Sigurður heitinn Brynjólfsson frá Gerði, Innir Arkaneshreppi, sem sá um hleðslu – og frágang stallanna við Grettistakið. – og reyndar komu fleiri að þessu máli öllu.
Steinninn sjálfur mun vera um 30 tonn að þyngd og er ættaður af Mýrum. Verkið allt mun hafa kostað um sjö milljónir króna á sínum tíma sem myndi þá nema – á uppfærðu verðlagi árið 2006, um 11 til 12 milljónum króna.
Dvalarheimilið Höfða, Höfðagrund, 300 Akranesi.