Hér inni við Kalmansvík er listaverk sem nefnd er „Grásleppukarlar í Kalmansvík“ og er eftir innfæddan Akurnesing, Jón Pétursson.
Jón er fæddur árið 1935 og vann löngum sem vélvirkji hjá Þorgeir og Ellert hf á Akranesi og Hval hf í Hvalfirði. Hann var hagur til hugs og handa, átti auðvelt með að setja saman vísur og kvæði og var meðal annars hönnuðurinn og smiðurinn að gestabókarkössum þeim, úr ryðfríu stáli, sem er að finna á Geirmundartindi (frá 1998) og Háahnúk (frá 1997), hæstu tindum fjallsins okkar.
„Grásleppukörlunum“ var komið fyrir á þessum stað árið 2001 og verkið afhjúpað af Gísla Gíslasyni, þáverandi bæjarstjóra, og það afhent bænum til varðveislu og eignar.
„Þorgeir og Ellert hf“ gáfu járnið í verkið og „Þorgeir og Helgi hf“ gáfu steinsteypuna (5 tonn) undir verkinu. Fleiri komu að vinnslu og kostnaði.
Um verkið sagði Jón:
Úr Kalmansvík var lengi stunduð nokkur grásleppuveiði og fór ég héðan í mína fyrstu sjóferð. Hér kynntist ég mörgum góðum mönnum sem stunduðu útgerð sína og á góðar minningar frá þeim tíma. Þessi staður er mér kærari en margir aðrir á Skaganum. Verk þetta tileinka ég föður mínum, Pétri Sigurbjörnssyni, og öðrum grásleppukörlum sem um langan aldur stunduðu grásleppuveiðar úr Kalmansvík.
Það er áhugaverð staðreynd að þótt sumum útlendingum í heimsókn til Akraness sé sögð sagan um tilurð verksins og frá hugmyndinni á bak við það þá er það fyrst þegar þeim er bent á „hárið“ og stormur nefndur í Kalmansvík að þeir virðast taka við sér og vilja út úr rútunni og mynda verkið í bak og fyrir!
Við Kalmansvík