Fótboltamenn eftir Sigurjón Ólafsson

Á hringtorginu sem nefnist Faxatorg og er staðsett við austurenda Skagabrautar og Stillholts er að finna „Fótboltamenn“ eftir Sigurjón Ólafsson sem fæddist árið 1908 á Eyrarbakka. Hann lést árið 1982. Sigurjón lærði húsamálun og nam síðar m.a. hjá Ásgrími Jónssyni og Einari Jónssyni. Hann stundaði einnig nám við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn og í Róm. Hann fékk gullpening Listaskólans í Danmörku á sínum tíma og kom aftur til Íslands í stríðslok 1945.

Sigurjón var einn af frumkvöðlum abstrakt-listar (óhlutbundinnar) höggmyndalistar á Íslandi og vann í stein, járn, leir og tré. Ragnar Jónsson í Smára tengdist honum sem mörgum öðrum listamönnum á sínum tíma og var honum m.a. innanhandar með húsbygginguna í Laugarnesi í Reykjavík.

Verkinu mun hafa verið lokið á fjórða áratug síðustu aldar. Það var keypt af Akranesbæ og sett upp árið 2001 er 50 ár voru liðin frá því að Íþróttabandalag Akraness varð fyrst Íslandsmeistari meistaraflokksliða.

Meðal annarra þekktra útilstaverka eftir Sigurjón er „veggskreytingin og Hávaðatröllið“ hjá Búrfellsstöð í Þjórsárdal, „Krían“ í nágrenni við Eyrarbakka, „Holskeflan“ við félagsheimilið Stapa í Ytri-Njarðvík, „Klyfjahesturinn“ á Hlemmtorgi í Reykjavík, „séra Friðrik Friðriksson“ í Lækjagötu, „Öndvegissúlurnar“ við húsið Höfða sem franski konsúllinn byggði árið 1909 á stað sem þá var vel utan við Reykjavík og svo mætti lengi telja. Hér sést á öllu að margra grasa kennir í stíl, viðfangsefnum og útfærslu hjá Sigurjóni.

Staðsetning

Hrintorginu Faxatorg, við austurenda Skagabrautar og Stillholts.