Akraneskaupstaður óskar ár hvert eftir tillögum frá bæjarbúum um hver ætti að fá titilinn bæjarlistamaður Akraness. Menningar- og safnanefnd fer í kjölfarið vandlega yfir tilnefningarnar og leggur fram tillögu til bæjarstjórnar um hvaða einstaklingur eða hópur hljóti titilinn bæjarlistamaður Akraness það árið. Það er bæjarstjóri sem afhendir bæjarlistamanni viðurkenninguna við hátíðlega athöfn á 17. júní ár hvert.
Árið 2020 var listakonan Tinna Rós Þorsteinsdóttir Bæjarlistamaður Akraness.
Tinna er fædd árið 1982 og hefur lengst af verið búsett á Akranesi. Að loknu grunnskólanámi stundaði hún nám við Myndlistaskólann á Akureyri og útskrifaðist úr fornámi skólans árið 2013. Tinna er lífleg, framsækin og skapandi listakona sem vert er að gefa gaum. Tinna fæst við fjölbreytt viðfangsefni í list sinni. Hún er hugmyndarík listakona sem er í stöðugri þróun. Hún vinnur með skemmtileg viðfangsefni sem hún setur í nýtt samhengi. Þar má meðal annars nefna hvernig henni tekst að vekja áhuga á vöruhönnun og draga fram áhugaverðan og listrænan flöt á vörum sem hafa um árabil verið hluti af lífi okkar.
Á undanförnum árum hefur Tinna auðgað menningarlíf á Akranesi og verið iðin við sýningahald á verkum sínum og jafnframt verið í samstarfi við aðra listamenn. Þá hefur hún oft á tíðum verið með opið á vinnustofu sinni þar sem allir eru velkomnir. Tinna er dugleg að deila efni af á samfélagsmiðlum þar sem fólki gefst kostur á að fylgjast með vinnu hennar frá því að hugmynd vaknar og þar til verk eru full kláruð.
Síðast en ekki síst hefur hún staðið fyrir myndlistarnámskeiðum fyrir börn og ungmenni sem er kærkomið í frístundaflóruna hér á Akranesi.
Eftirtaldin hafa fengið titilinn bæjarlistamaður Akraness
Ægisbraut 30, 300 Akranesi.